UFC-bardagakappinn Gunnar Nelson fékk ágætlega borgað fyrir bardaga sinn um helgina í O2 Arena í Lundúnum.
Gunnar lagði Bandaríkjamanninn Bryan Barberena að velli strax í fyrstu lotu en Gunnar átti frammistöðu kvöldsins á bardagakvöldinu sem skilaði honum nokkrum aukakrónum í kassann.
Vefmiðillinn TotalSport greinir frá því að Gunnar hafi fengið greidda í kringum 465.000 bandaríkjadali fyrir bardagakvöldið en inn í þeirri upphæð eru allar greiðslur, bónusar og styrktarsamningar.
Það gerir rúmlega 65 milljónir íslenskra króna en Gunnar hefur nú unnið tvo bardaga í röð í UFC, gegn Barberena um helgina og Takashi Sato frá Japan fyrir ári.
Uppfært klukkan 12:55
Haraldur Nelson, faðir bardagakappans Gunnars Nelson og umboðsmaður hans, segir að þær fjárhæðir sem Gunnar er í erlendum miðlum sagður hafa þénað fyrir bardaga sinn við Bryan Barberena á laugardag séu algjörlega úr lausu lofti gripnar.