Tékkneska tennisgoðsögnin Martina Navratilova hefur sigrast á krabbameini í hálsi og brjósti.
Hin 66 ára gamla Navratilova, sem einnig er með bandarískan ríkisborgararétt, greindi frá því í janúar síðastliðnum að hún hafi greinst með fyrsta stigs krabbamein í bæði hálsi og brjósti.
Í viðtali við breska fjölmiðlamanninn Piers Morgan á sjónvarpstöðinni TalkTV, sem verður sjónvarpað í næstu viku, sagði hún: „Eftir því sem þeir [læknar] komast næst er ég laus við krabbameinið.“
Navratilova er talin einn besti tennisleikari allra tíma og hafði áður greinst með brjóstakrabbamein árið 2010, en sigraðist sömuleiðis á því.