Vignir Vatnar Stefánsson varð í dag sextándi stórmeistari Íslendinga í skák frá upphafi þegar hann vann lokaskákina á Arandjelovac-mótinu í Serbíu í dag.
Í lokaskákinni hafði Vignir Vatnar, sem er tvítugur, betur gegn gríska meistaranum Dimitris Alexakis með svörtu í rosaskák, að því er Vignir Vatnar greindi sjálfur frá í samtali við Skák.is.
Alls fékk hann sjö vinninga á mótinu af níu mögulegum. Árangur Vignis Vatnars samsvaraði 2608 skákstigum.
Hann bíður þess nú að verða formlega útnefndur stórmeistari.
Alls tóku 48 skákmenn frá 13 löndum þátt á mótinu í Serbíu. Þar af eru 13 stórmeistarar.
Vignir er númer átta í stigaröð keppenda en Alexakis númer 37.