Íslandsmeistararnir svöruðu fyrir sig

Hasar við mark Akureyringa í leiknum í kvöld.
Hasar við mark Akureyringa í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Deildarmeistarar og Íslandsmeistarar síðustu fjögurra ára, SA, jöfnuðu metin í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí í kvöld með sigri á SR, 5:2, í Skautahöllinni í Laugardal. SR vann fyrsta leik einvígisins nokkuð óvænt á Akureyri, 7:3.

Fyrsti leikhlutinn var algjörlega frábær skemmtun. Mikill hiti var í leikmönnum, aragrúi af færum á báða bóga og tvö mörk, sem hefðu hæglega getað verið töluvert fleiri.

Það var strax á fimmtu mínútu leiksins sem Unnar Rúnarsson kom gestunum frá Akureyri yfir með góðu skoti utan af svelli í gegnum þéttan pakka af leikmönnum beggja liða. Bæði lið fengu frábær færi til að bæta við mörkum í leikinn en Jóhann Már Leifsson, leikmaður SA, fékk klárlega það besta, en hann nýtti ekki víti á 10. mínútu.

Reynsluboltinn Orri Blöndal vann þá pökkinn í vörninni og æddi upp völlinn, alla leið að marki SR, þar sem hann var felldur og víti dæmt. Jóhann tók vítið en brenndi af.

Á 17. mínútu jöfnuðu svo heimamenn. Styrmir Maack komst þá í frábært færi en skaut í þverslánna. Það kom þó ekki að sök þar sem Gunnlaugur Þorsteinsson mætti eins og gammur, hirti frákastið og setti pökkinn yfir línuna af stuttu færi.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins var svo allt nánast soðið upp úr en Níels Hafsteinsson fór þá af fullum krafti í Hafþór Andra Sigrúnarsonar við litla hrifningu Akureyringa. Hafþór hló að atvikinu en það sama verður ekki sagt um liðsfélaga hans sem létu mörg vel valin orð falla að leikmönnum SR, sem svöruðu í sömu mynt. Fleiri urðu mörkin þó ekki í fyrsta leikhluta og staðan því 1:1 þegar þriðjungur leiks var búinn.

Annar leikhluti var örlítið tvískiptur. Heimamenn voru betri aðilinn fyrri helming hans en seinni helminginn voru það gestirnir sem höfðu yfirhöndina. Á 27. mínútu komust SR-ingar yfir en Þorgils Eggertsson skoraði þá með glæsilegu skoti, uppi í bláhornið vinstra megin þar sem Jakob Jóhannesson kom engum vörnum við.

Skömmu eftir markið komust Akureyringar þó aftur inn í leikinn og á 36. mínútu jafnaði fyrirliðinn Andri Már Mikaelsson metin í 2:2. Hann fékk þá pökkinn um fjórum metrum frá marki og smellti honum í bláhornið, framhjá þéttum varnarmúr SR-inga og Atla Valdimarssyni markverði.

Í aðdragandanum hafði verið orrahríð að marki SR þar sem varnarmenn liðsins hentu sér fyrir hvert skotið á fætur öðru, en Andri kom pekkinum framhjá þeim. Staðan þegar öðrum þriðjungi lauk var því 2:2.

SR byrjaði þriðja leikhlutann betur en það voru engu að síður gestirnir sem komust yfir á 43. mínútu. Andri Már Mikaelsson vann þá pökkinn af harðfylgi og komst einn gegn Atla sem varði vel, en varnarmaðurinn Gunnar Arason var mættur fremstur með Andra og fylgdi vel á eftir.

Fimm mínútum síðar komst SA svo tveimur mörkum yfir. Liðið var manni færri en Hafþór Andri Sigrúnarson og Jóhann Már Leifsson unnu pökkinn í sameiningu. Jóhann réðst á vörnina með pökkinn, áður en hann lagði hann til hliðar á Hafþór á fullkomnum tíma, og Hafþór gerði engin mistök. 

Eftir fjórða markið sigldi SA sigrinum nokkuð þægilega í höfn en SR tókst illa að setja pressu á gestina fyrr en um þrjár mínútur voru eftir af leiknum. SA hins vegar varðist öllum sóknaraðgerðum heimamanna vel og þegar um 20 sekúndur voru eftir af leiknum gerði liðið endanlega út um leikinn.

Hafþór Andri vann þá pökkinn af varnarmönnum SR, fann Andra Má sem framlengdi á Jóhann Má sem skoraði. Jóhann sýndi mikla yfirvegun í færinu en hann fór skemmtilega framhjá Atla í marki SR áður en hann setti pökkinn í opið mark. Alls ekki fyrsta markið sem þetta magnað þríeyki í SA-liðinu býr til og að öllum líkindum ekki það síðasta heldur.

SA fer því með 5:2-sigur heim til Akureyrar og staðan í einvíginu 1:1. Næsti leikur liðanna fer fram í Skautahöllinni á Akureyri klukkan 16.45 á sunnudaginn næstkomandi.

SR 2:5 SA opna loka
60. mín. SR Textalýsing Mínúta eftir og SA sækir. Heimamenn þurfa kraftaverk og ég sé það ekki koma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert