Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur tekið ákvörðun um að meina transkonum að taka þátt í kvennaflokki allra greina sem falla undir sambandið.
Sebastian Coe, forseti sambandsins, tilkynnti í dag að engin transkona sem hafi farið í gegnum kynþroskaskeið karla komi til með að mega taka þátt í neinum mótum sem gilda til stigasöfnunar á heimslista.
Tekur bannið gildi frá og með 31. mars.
Vinnuhópur á vegum sambandsins mun áfram rannsaka hvernig best sé að bera sig að í viðmiðum um þátttökurétt transkvenna.
Í tilkynningunni sagði Coe að ákvörðunin hafi verið tekin með það fyrir augum að vernda kvennaflokk í frjálsíþróttum.
Hann bætti því við að þrátt fyrir þessa ákvörðun hafi sambandið ekki lokað dyrunum á transkonur til frambúðar.
Þá benti Coe á að sem stendur er engin transkona eða –karl að keppa alþjóðlega í frjálsíþróttum.