Tvíhöfði var leikinn í blaki að Varmá í Mosfellsbæ í gær þegar bæði karla- og kvennalið KA komu í heimsókn og spilað var í efri krossi.
Karlamegin börðust liðin um að ná 2. sæti í úrvalsdeildinni þar sem tvö efstu sætin gefa öruggt sæti í úrslitakeppni efstu fjögurra liðanna.
Karlaleikurinn fór fyrst fram og unnu gestirnir frá Akureyri fyrstu hrinu með minnsta mögulega mun, 25:23. Önnur hrinan var eign Norðanmanna enda unnu þeir hana örugglega, 25:15.
Afturelding þurfti að minnsta kosti eitt stig til að tryggja sér annað sætið en KA þurfti öll þrjú stigin úr leiknum. Þriðja hrinan var eign Aftureldingar, en liðið kom dýrvitlaust inn í hana og vann örugglega, 25:16.
Í fjórðu hrinu var allt undir hjá KA en Afturelding vann hana 25:23 eftir frábær tilþrif beggja liða og tryggði sér því oddahrinu og stigið dýrmæta sem liðið þurfti.
Allur varamannabekkur Aftureldingar fékk að taka þátt í síðustu hrinunni og sýndu leikmenn að þeir áttu vel heima inni á vellinum því þeir unnu oddahrinuna. 15:12, og leikinn þar með 3:2 eftir magnaða endurkomu
Afturelding er þar með öruggt með annað sæti deildarinnar á eftir deildarmeisturum Hamar.
Stigahæstir hjá Afureldingu voru Dorian Poinc með 19 stig og Hafsteinn Már Sigurðsson með 17 stig. Stigahæstir hjá KA voru Pedro José López með 19 stig og Miguel Mateo Castrillo með 18 stig.
Kvennaleikurinn hófst að loknum karlaleiknum en fyrir leikinn gátu KA konur tryggt sér deildarmeistaratitilinn.
Norðan-konur byrjuðu mun betur og náðu strax góðri forystu sem þær létu aldrei af hendi. Unnu gestirnir fyrstu hrinuna, 25:17.
Aftureldingar-konur komu mun grimmari inn í næstu hrinu, gáfu ekkert eftir og náðu að vinna hana 25:23.
Þá var eins og allur vindur væri úr KA-konum og gekk Afturelding á lagið og vann þriðju hrinu örugglega, 25:14.
Fjórða hrinan var hins vegar mjög skemmtileg og mikið um frábæran leik hjá báðum liðum en KA þurfti nauðsynlega stig út úr leiknum til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.
Afturelding vann hins vegar hrinuna 25:23 og leikinn þar með 3:1.
Stigahæst í leiknum var María Rún Karlsdóttir með 20 stig fyrir Aftureldingu. Stigahæst í liði KA var Helena Kristín Gunnarsdóttir með 17 stig.
Þessi úrslit þýða að KA og Álftanes koma til með að berjast um deildarmeistaratitilinn í hreinum úrslitaleik á Akureyri þann 1. apríl næstkomandi.
Að loknu krossspili efstu þriggja liðanna og liðanna í 4.–7. sæti fer fram keppni milli liðanna í 3.–6. sæti um að komast í úrslitakeppni efstu fjögurra liðanna.