SR er Íslandsmeistari eftir 14 ára bið

Leikmenn SR fagna vel og innilega í leikslok.
Leikmenn SR fagna vel og innilega í leikslok. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

SA-Víkingar úr Skautafélagi Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur mættust í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí í kvöld. Leikið var í pakkfullri Skautahöllinni á Akureyri og var mikil stemning meðal áhorfenda, sem flestir voru á bandi SA.

SA-Víkingar höfðu unnið Hertz-deildina nokkuð sannfærandi og voru því með heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Hvort lið hafði unnið tvo leiki í henni. Leikur kvöldsins var fyrsti oddaleikur í úrslitakeppninni í tíu ár. Var enda rafmögnuð spenna í loftinu fyrir leik og mátti sjá fjölmarga bláklædda stuðningsmenn Reykvíkinga meðal áhorfenda.

Fyrirliðinn Bjarki Jóhannesson tekur við Íslandsmeistarabikarnum.
Fyrirliðinn Bjarki Jóhannesson tekur við Íslandsmeistarabikarnum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

SA var á höttunum eftir fimmta titli liðsins í röð en SR-ingar unnu síðast árið 2009 og sáu gullið tækifæri á að bæta titli í safnið og ljúka eyðimerkurgöngu félagsins.

Eftir æsispennandi leik þá var það SR sem hafði 4:3-sigur og gátu gestirnir fagnað vel og innilega í leikslok.

Fyrsti leikhlutinn var bráðfjörugur og var staðan 2:2 eftir hann. SA var líklega aðeins sterkari aðilinn á fyrstu mínútunum og þegar SR-ingar fóru að missa leikmenn af velli vegna brota þá óx heimamönnum ásmegin.

Þeir skoruðu fyrsta mark leiksins um miðjan leikhlutann en þá komust fjórir Víkingar í sókn gegn einum varnarmanni SR-inga og eftirleikurinn var auðveldur. Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði markið, 1:0.

Leikmenn SR þakka fyrir sig í leikslok.
Leikmenn SR þakka fyrir sig í leikslok. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Rúmlega mínútu síðar var orðið jafnt. Axel Orongan setti pökkinn í netið eftir að hafa verið að dóla með hann í rólegheitum í kringum mark heimamanna, 1:1.

Það var svo í þriðju yfirtölu SA-Víkinga að þeir komust yfir á ný. Jóhann Már Leifsson átti gott skot út við stöng sem söng í netinu, 2:1.

SR jafnaði svo leikinn í sinni fyrstu yfirtölu og kom markið 4 sekúndum fyrir lok leikhlutans. Ólafur Björnsson átti skot sem Jakob Jóhannsson náði ekki að bægja frá og Axel lá eins og gammur við fjærstöngina og þrýsti pökknum yfir línuna, 2:2.

Annar leikhlutinn var rétt byrjaður þegar SR komst yfir með skrautlegu marki. Löng og há sending kom fram völlinn þar sem pökkurinn braut næstum ljósaperurnar í Skautahöllinni. Varnarmaður SA ætlaði sér að grípa pökkinn og taka hann niður en það misheppnaðist hrapalega. Pétur Maack fékk pökkinn til sín þar sem hann var aleinn nærri marki SA. Hann lék bara upp að marki og skoraði, 3:2 fyrir SR.

Stuðningsfólk SR var ánægt með sína menn í kvöld.
Stuðningsfólk SR var ánægt með sína menn í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

SA jafnaði nokkru síðar og var þar Hafþór Sigrúnarson að verki eftir góðan sprett upp hægri kantinn. Ekki komu fleiri mörk í öðrum leikhlutanum þrátt fyrir mikla orrahríð og staðan því 3:3 fyrir lokabardagann.

Í honum var það SR sem skoraði mark nokkuð snemma og komu sér ú 4:3. Kom það mark eftir klafs og baks upp við mark SA og tókst Kára Arnarssyni að koma pökknum út við stöng á marki SA. Reyndist þetta lokamark leiksins og þá sigurmarkið. Kári skoraði því sigurmark í tveimur síðustu leikjum liðanna.

Maður leiksins verður hins vegar að teljast Atli Valdimarsson, markvörður SR. Hann varði jafnt og þétt allan leikinn og í raun í seríunni allri. Á lokasekúndum þessa leiks kórónaði hann svo leik sinn með því að verja tvívegis frá Unnari Rúnarssyni.

SA 3:4 SR opna loka
60. mín. SA Textalýsing Atli ver hörkuskot frá Jóhanni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert