Katla Björg Dagbjartsdóttir úr Skíðafélagi Akureyrar tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í stórsvigi á Skíðamóti Íslands í Böggvisstaðafjalli á Dalvík í dag. Hún varð sömuleiðis Íslandsmeistari í svigi í gær.
Katla Björg náði samanlögðum tíma upp á 1:58,02 mínútur og skaut þar með Sonju Li Kristinsdóttur og Hörpu Maríu Friðgeirsdóttir ref fyrir rass.
Sonja hafnaði í öðru sæti á tímanum 1:58,46 og Harpa María náði þriðja sæti á 1:59,21 mínútum.
Karla megin hrósaði hinn 19 ára gamli Tobias Hansen sigri með samanlögðum tíma upp á 1:52,67 mínútur.
Matthías Kristinsson úr Skíðafélagi Ólafsfjarðar, sem vann til Íslandsmeistaratitils í svigi í gær, hafnaði í öðru sæti á 1:53,28 mínútum.
Gauti Guðmundsson varð þriðji á tímanum 1:54,13.