Fyrsti og annar dagurinn á Íslandsmótinu í sundi fór fram í Laugardalslauginni um helgina, en þriðji og síðasti dagurinn er í dag. Margt af fræknasta sundfólki landsins var viðstatt og mikil stemning myndaðist.
Eitt Íslandsmet og nokkur unglingamet voru slegin en Birnir Freyr Hálfdánarson úr Sundfélagi Hafnarfjarðar synti 200 metra fjórsund á tímanum 2:04,05 í gær og sló þar með met Antons Sveins McKee, 2:04,53, frá árinu 2015, en í leiðinni bætti hann einnig unglingamet sitt.
Birnir vann 100 og 200 metra fjórsund og sló unglingametin í báðum greinum. Hann synti á 55,38 sekúndum í þeirri fyrrnefndu. Hann vann einnig 4x100 metra og 200 metra skriðsund með sveit SH. Hann tryggði sig inn á Evrópumeistaramót unglinga og þar með frábær helgi hjá drengnum staðreynd.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH varð Íslandsmeistari í tveimur greinum, 50 metra skrið- og flugsundi. Jóhanna synti á tímanum 26,20 sekúndur í skriðsundinu og 27,88 sekúndur í flugsundinu, en hún er nýkomin til landsins frá Badaríkjunum þar sem hún stundar nám í Dallas.
„Ég er bara mjög sátt, þetta er ekki minn besti tími en ég er yfirhöfuð ánægð með árangurinn,“ sagði Jóhanna í samtali við Morgunblaðið.
Viðtalið við Jóhönnu má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.