Landsliðskona frá Kasakstan til SR

Malika Aldabergenova í leik með landsliði Kasakstan.
Malika Aldabergenova í leik með landsliði Kasakstan. Ljósmynd/SR

Malika Aldabergenova, varafyrirliði kvennalandsliðs Kasakstan, hefur samið við Skautafélag Reykjavíkur um að leika með liðinu í úrvalsdeildinni í íshokkí á næsta tímabili.

Malika, sem er 24 ára gömul en býr yfir gífurlegri reynslu, hefur undanfarin ár leikið fyrir lið Aisulu í Almaty-borg í heimalandinu. Um er ræða einkar sterkt lið sem hafnaði í fjórða sæti í Evrópudeild kvenna á tímabilinu.

Því er ljóst að um mikinn liðstyrk er að ræða fyrir ungt lið SR, sem var endurvakið fyrir þremur árum.

Kvennalandslið Kasakstan er í 21. sæti heimslistans, sex sætum fyrir ofan Ísland og spilar einni deild ofar en íslenska liðið, í B-riðli 1. deildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert