Anton Sveinn McKee fagnaði sigri í 200 metra bringusundi á Íslandsmótinu í sundi í 50 metra laug í Laugardalshöll í dag.
Anton Sveinn kom í mark á tímanum 2:11,01 mínútu og náði hann um leið lágmarki fyrir HM 2023 sem fram fer í Fukuoka í Japan i júlí.
Þá kom Jóhanna Elín Guðmundsdóttir fyrst í mark í 100 metra skriðsundi á tímanum 57,30 sekúndum.
Hólmar Grétarsson fagnaði sigri í 400 metra fjórsundi og Ylfa Lind Kristmannsdóttir kom fyrst í mark í 200 metra baksundi.
Magnús Víðir Jónsson kom fyrstur í mark í 200 metra skriðsundi og Vala Dís Cicero fagnaði sigri í 100 metra flugsundi.
Birnir Freyr Hálfdánarson setti unglingamet í 50 metra flugsundi þegar hann synti á tímanum 24,91 sekúndu og Birgitta Ingólfsdóttir fagnaði sigri í unglingaflokki í 50 metra bringusundi.