Forsvarsmenn Fjölnis kveðjast forviða yfir ákvörðun menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur um að skautasvellinu í Egilshöll verði lokað í júní næstkomandi.
„Það liggur nú ekki alveg fyrir hve lengi lokunin varir en við reiknum með að þetta sé yfir sumarið á meðan formlegar æfingar hafa legið niðri.
Á þessum tíma hafa verið sumarskólar þar sem er verið að kynna þessar skautaíþróttir fyrir fólki. Svo hafa afreksmenn líka verið að æfa yfir sumrið. Þetta er væntanlega þessa 3-4 mánuði yfir hásumarið,“ sagði Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis, í samtali við mbl.is.
Af þessu leiðir að Reykvíkingar sjá ekki fram á að geta iðkað skautaíþróttir um nokkurra mánaða skeið.
„Sú afleiðing sem við sjáum fyrir, verði þetta gert svona, er sú að þá er ekkert svell opið í Reykjavík um 3-4 mánaða skeið.“
Spurður hverjar ástæðurnar sem ráðið hafi gefið fyrir ákvörðun sinni væru sagði Jón Karl:
„Það er lítið annað en að borgin sé að draga saman seglin vegna fjárhagsstöðu hennar. Þetta er að leiða til einhvers konar sparnaðar sem við erum svo sem ekki alveg að skilja því það er náttúrlega ekki hægt að láta ísinn bráðna, hann þarf að vera þarna hvort eð er.
Það er punkturinn sem við erum að benda á, að það sé ekki auðséð hver sparnaðurinn sé nákvæmlega af þessu. Maður skilur þetta ekki alveg því ekki getur maður tekið svellið niður, það er einfaldlega algjörlega galið. Það kostar svo mikið að setja það í gang aftur þannig að þú vilt hafa það í gangi.
Það hefur í för með sér kostnað, til dæmis við rafmagn og dælur til þess að svellið sé til staðar. Það þarf allavega að skýra betur fyrir okkur hver sparnaðurinn raunverulega er með því að leyfa ekki æfingar þarna inni.“
„Borgin borgar ákveðna leigu til eigenda hússins, sem er annars vegar skautasvellið, sem er í eigu borgarinnar sjálfrar og svo á Reginn auðvitað Egilshöllina.
Eflaust er ætlunin að spara sér einhverjar leigugreiðslur með þessu, ég geri ráð fyrir því, en rekstarkostnaðurinn af öllu saman verður alveg áfram til staðar.
Við viljum fá skýringu á þessu og viljum auðvitað hafa þjónustuna eins góða og hægt er. Það er fullt af fólki sem hefur áhuga á því að æfa skauta, ekki bara yfir veturinn heldur allt árið,“ hélt hann áfram.
Í yfirlýsingu Fjölnis, þar sem Jón Karl er einn af fjórum sem skrifar undir, er bent á að skautasvellinu í Laugardal verði einnig lokað yfir sumartímann.
„Undanfarin ár hafa skautasvellin verið opin yfir sumartímann. Í gamla daga voru menn að æfa fótbolta á sumrin og handbolta á veturna en þetta er auðvitað orðið allt öðruvísi í íþróttum almennt. Þetta er orðið meira og minna allt árið.
Því hefur verið mætt undanfarin ár með því að vera með skautasvellin og íþróttasalina meira opna. Við erum með íþróttaskóla fyrir handbolta og körfubolta á sumrin þannig að það er verið að æfa meira og minna allar íþróttir allt árið um kring.
Síðustu 2-3 sumur hafa svellin verið meira og minna opin með hliðsjón af þessum sérsamningi við borgina, sem á allt í einu núna að vera ekki til staðar. Ég held að það sé það sama upp á teningnum niðri í Laugardal,“ sagði hann.
Í yfirlýsingunni er gert því skóna að með þessari ákvörðun sé einni íþróttagrein mismunað á kostnað annarra.
„Við hljótum að minnsta kosti að spyrja okkur að því hvort það sé raunin vegna þess að undanfarin ár hefur þessari eftirspurn á íþróttaiðkun líka verið mætt yfir sumarið.
Nú verður þetta lokað og við vitum til dæmis ekki til þess að það eigi að loka á möguleikann á því að vera með handbolta og körfubolta í sumar.
Miðað við það þá er í rauninni verið að koma einni íþróttagrein í þá stöðu að hún verði alveg lokuð yfir þetta tímabil,“ sagði Jón Karl að lokum í samtali við mbl.is.
Yfirlýsingu Fjölnis má lesa í heild sinni hér:
„Efni: Skert þjónusta við skautafólk
Frímann Ari Ferdinandsson formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur hefur fært Ungmennafélaginu Fjölni þau ótíðindi að menningar- íþrótta- og tómstundaráð hafi ákveðið að loka fyrir aðstöðu til skautaiðkunar í Egilshöll í júní næstkomandi.
Undirrituð eru forviða yfir þessari fregn og lýsa yfir miklum áhyggjum vegna hennar. Ákvörðunin kemur eins og reiðarslag í andlit forsvarsmanna og iðkenda þar sem gengið var út frá því að þjónusta við þá yrði eins og verið hefur undanfarin ár. Það er álit undirritaðra að gangi lokunin eftir sé verið að mismuna iðkendum einstakra íþróttagreina.
Það er mat undirritaðra að sparnaður sé takmarkaður í ljósi þess að svellinu þarf að halda frosnu í sumar hvort sem æft er á því eða ekki, því er óraunhæft að telja þetta sem hagræðingu. Fyrir Fjölni yrði lokunin mikið tekjutap þegar æfingagjöld falla niður og þjálfarar nýtast ekki til þeirrar vinnu sem þeir eru ráðnir til.
Niðurskurður mun hafa mikil áhrif á starfsemi Fjölnis til æfinga og á sumarnámskeiða fyrir listskauta og íshokkí. Undanfarin sumur hefur Fjölnir haldið úti sumarbúðum fyrir eldri iðkendur í framhaldshópum, ásamt því að sumarstarfið hefur laðað til sín áhugasama úr öðrum félögum. Á sumarnámskeiði fyrir iðkendur í 1. – 4. bekk hefur verið boðið upp á heildstæða dagskrá sem hefur reynst vel og verið mjög eftirsótt. Fyrir utan hversu mikil forvörn felst í góðum anda og samskiptum þátttakenda.
Listskautadeild Fjölnis hefur með markvissri uppbyggingu á starfseminni náð góðum árangri, nú síðast í vor þegar bikarmeistaratitli var náð.
Í ljósi þess að skautasvellið í Laugardal verði einnig lokað þá eiga iðkendur í Reykjavík hvergi möguleika á að æfa. Ólíkt öðrum íþróttum þá er ekki hægt að vera utandyra að sumri til. Við gætum því boðið iðkendum SR í sumarbúðir okkar ásamt því að eldri iðkendur hafa tök á því að æfa sína íþrótt.
Undirrituð fara þess hér með á leit að menningar- íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur
dragi ákvörðun sína um lokun til baka þannig að iðkendur listskauta og íshokkí geti stundað sína íþrótt eins og áformað hefur verið.
Virðingarfyllst
formaður Fjölnis
Jón Karl Ólafsson
varaformaður Listskautadeildar Fjölnis
Tinna Arnardóttir
framkvæmdastjóri Fjölnis
Guðmundur L. Gunnarsson
íþróttastjóri Fjölnis
Arnór Ásgeirsson“