Breski hnefaleikakappinn Amir Khan hefur verið úrskurðaður í tveggja ára keppnisbann vegna lyfjamisferlis.
Málið lýtur að því að eftir bardaga Khans gegn Kell Brook í febrúar árið 2022, sem Brook vann, féll sá fyrrnefndi á lyfjaprófi eftir að ostarín greindist í blóði hans.
Khan gekkst við því að hafa brotið gegn reglum breska lyfjaeftirlitsins en bar fyrir sig að það hafi verið óviljandi.
Hann lagði boxhanskana á hilluna á síðasta ári og hyggur ekki á endurkomu en kveðst þó aldrei hafa svindlað á ferli sínum.
„Ég hef aldrei svindlað en er nú í tveggja ári banni, sem er ansi skrítið og skondið þar sem ég hef þegar lagt hanskana á hilluna.
Ég hef ekki uppi nein áform um endurkomu. En ég hef aldrei svindlað og mun aldrei gera. Það er bara ekki eitthvað sem ég myndi gera,“ sagði Khan í samtali við Sky Sports.
Keppnisbannið gildir frá apríl 2022 til apríl 2024 og hefur Khan því þegar tekið út fyrra ár þess. Bannið nær til afskipta af öllum íþróttum.