Fossavatnsgangan, stærsta skíðagöngumót landsins, fer fram á Ísafirði í lok vikunnar. Alls eru um 500 þátttakendur skráðir til leiks í ár, frá 20 löndum í fjórum heimsálfum.
Á fimmtudaginn er keppt í 25 kílómetra göngu með frjálsri aðferð, Fossavatnsskautinu, ásamt eins og fimm kílómetra fjölskyldugöngum.
Stærstu viðburðirnir fara svo fram á laugardaginn þar sem keppt er í hefðbundinni göngu í þremur vegalengdum þar sem sú lengsta er um 50 kílómetrar.
„Gangan er vel þekkt, bæði meðal innlendra og erlendra skíðagöngumanna og það er gaman að taka á móti svona stórum og fjölbreyttum hópi ár hvert,“ sagði Kristbjörn Róbert Sigurjónsson, starfsmaður göngunnar, í tilkynningu.
Hann sagði mikla eftirvæntingu ríkja á Ísafirði fyrir göngunni, enda fyllist bærinn af fólki auk þess sem heimafólk er duglegt að skrá sig til leiks.
„Við höfum staðið í ströngu við að útfæra gönguleiðirnar miðað við aðstæður, enda hefur snjóa leyst nokkuð undanfarnar vikur,“ sagði Kristbjörn.
„Starfsfólk skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar og sjálfboðaliðar göngunnar eru lausnamiðuð og öflug og hafa náð að leggja drög að flottum leiðum þrátt fyrir minni snjó í ár en oft áður og við náum að ræsa gönguna á sínum venjulega stað, við skíðaskálann á Seljalandsdal,“ hélt hann áfram.
Fossavatnsgangan hefur verið haldin á Ísafirði síðan árið 1935 og er einn elsti íþróttaviðburður á Íslandi. Fyrsta gangan var 18 kílómetra löng og voru þátttakendur sjö talsins.
Á 80 ára afmæli göngunnar, árið 2015, varð gangan hluti af Worldloppet-seríunni, sem gengur út á að ljúka tíu skíðagöngum í tíu löndum, í brautum sem eru frá 50 til 90 kílómetrar.