Valgarð náði bestum árangri Íslendinga

Íslenska liðið á EM.
Íslenska liðið á EM. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Karlalandslið Íslands hefur lokið keppni á Evrópumótinu í Tyrklandi í fjölþraut í fimleikum. Íslandsmeistarinn Valgarð Reinhardsson náði bestum árangri Íslendinga, en hann var nálægt því að tryggja sér öruggt sæti á HM.

Ísland hafnaði í 20. sæti í liðakeppninni með samtals 229.427 stig. Þeir Ágúst Ingi Davíðsson, Dagur Kári Ólafsson, Jónas Ingi Þórisson, Martin Bjarni Guðmundsson og Valgarð Reinhardsson kepptu í liðakeppninni og Jón Sigurður Gunnarsson keppti sem specialisti á hringjum.

Valgarð fékk 75.698 stig og var Dagur Kári Ólafsson þar á eftir með 75.565 stig. Ágúst Ingi sýndi glæsilegar æfingar á tvíslá, svifrá og hringjum. Jónas átti mjög góðan dag þar sem hann gerði flottar æfingar á gólfi, bogahesti og stökki.

Martin Bjarni keppti í fjölþraut og hafnaði hann þriðji efstur af Íslensku strákunum. Jón Sigurður framkvæmdi virkilega erfiða hringjaæfingu en því miður vafðist afstökkið fyrir honum í dag.

Skýrist það betur á næstu dögum hvort að einhver íslensku strákana hafi tryggt sér inn fjölþrautarsæti á heimsmeistaramótinu í Belgíu en samkvæmt fyrstu útreikningum er Valgarð fyrsti varamaður inn og Dagur Kári annar. Það hefur þó ekki verið staðfest af Alþjóða fimleikasambandinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert