Völsungur og Afturelding standa vel að vígi í 1. umferð úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki eftir útisigra á HK og Þrótti í Fjarðabyggð í fyrri leikjum liðanna í gærkvöld.
Völsungur sótti HK heim í Digranesið í Kópavogi og vann 3:0. Hrinurnar enduðu 25:18, 25:19 og 25:20, Húsvíkingum í hag. Liðin mætast aftur á Húsavík á morgun.
Leikur Þróttar og Aftureldingar í Neskaupstað var hörku spennandi og mjög sveiflukenndur. Mikið var um ása í leiknum en einnig var töluvert um uppgjafamistök. Afturelding sigraði 3:1 og vann fyrstu hrinuna 25:17, Þróttur þá næstu 25:22 en Afturelding tvær næstu, 25:16 og 25:17.
Liðin mætast aftur á morgun að Varmá og þá þarf Þróttur sigur til að knýja fram gullhrinu og eiga möguleika á sætinu í undanúrslitunum.
Stigahæstar hjá Þrótti voru Ester Rún Jónsdóttir og Paula Miguel, báðar með 12 stig. Stigahæstar hjá Aftureldingu voru Daníela Grétarsdóttir með 14 stig, þar af níu ása, og Tinna Rut Þórarinsdóttir með 13.
Liðin sem vinna þessi einvígi mæta KA og Álftanesi í undanúrslitum mótsins.