Kristín og Einar hlutskörpust í Íslandsglímunni

Einar Eyþórsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir með Grettisbeltið og Freyjumenið …
Einar Eyþórsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir með Grettisbeltið og Freyjumenið í dag. Ljósmynd/Glímusamband Íslands

Íslandsglíman fór fram í íþróttahúsi Glerárskóla á Akureyri í dag. Þrjár konur og sex karlar voru þar skráð til keppni. Í dag fór Íslandsglíman fram í 112. skipti.

Glíma þurfti til úrslita í keppninni um Grettisbeltið, elsta verðlaunagrip Íslands. Einar Eyþórsson úr Mývetningi og Hákon Gunnarsson úr Val á Reyðarfirði voru jafnir að stigum og þurftu þeir að glíma til þrautar en glíman stóð yfir í hartnær 5 mínútur.

Einar hrósaði að lokum sigri og stóð uppi sem glímukóngur Íslands í fyrsta sinn, en hann tók þátt á Íslandsglímunni í 11. sinn.

Systurnar Kristín Embla og Elín Eik Guðjónsdætur úr Val á Reyðarfirði mættust en yngri systirin Elín Eik keppti í fyrsta sinn á Íslandsglímunni.

Kristín Embla sigraði í keppninni um Freyjumenið og er því glímudrottning Íslands í þriðja sinn á ferlinum.

Úrslit í keppni um Grettisbeltið:

  1. Einar Eyþórsson, Mývetningi. Glímukóngur Íslands 2023.
  2. Hákon Gunnarsson, Val Reyðarfirði 
  3. Þórður Páll Ólafsson, Val Reyðarfirði 

Úrslit í keppni um Freyjumenið:

  1. Kristín Embla Guðjónsdóttir, Val Reyðarfirði. Glímudrottning Íslands 2023.
  2. Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir, GFD
  3. Elín Eik Guðjónsdóttir, Val Reyðarfirði
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert