Völsungur og Afturelding í undanúrslit

Úr leik Aftureldingar og Þróttar Fjarðabyggðar í dag.
Úr leik Aftureldingar og Þróttar Fjarðabyggðar í dag. Ljósmynd/Sigga Þrúða

Völsungur og Afturelding tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna með góðum sigrum í umspili.

Í vikunni hafa liðin í 3. til 6. sæti úrvalsdeildarinnar mæst í umspili með það fyrir augum að fylgja KA og Álftanesi í undanúrslitin.

Völsungur fékk HK í heimsókn og hafði betur, 3:1. Vinna þarf tvo leiki og það gerði Völsungur enda lauk fyrri leiknum í Digranesi á fimmtudag með 3:0-sigri Húsvíkinga.

Völsungur mætir KA í undanúrslitunum.

Afturelding fór sömu leið og Völsungur, þ.e. vann báða leiki sína gegn Þrótti Fjarðabyggð.

Mosfellingar unnu fyrri leikinn fyrir austan 3:1 og síðari leikinn í Mosfellsbæ í dag sömuleiðis 3:1.

María Rún Jónsdóttir átti stórkostlegan leik fyrir Aftureldingu í dag þar sem hún skoraði 27 stig.

Afturelding mætir Álftanesi í undanúrslitunum.

Sem fyrr þarf að vinna tvo leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert