„Þetta var kaflaskipt hjá okkur,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson, leikmaður Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 2:0-tap gegn Víkingum í annarri umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag. Fylkismenn eru stigalausir eftir fyrstu tvo leikina.
„Við erum lentir 2:0 undir eftir korter og þá er þetta brekka. Það tók okkur smá tíma að vinna okkur inn í leikinn eftir það en mér fannst seinni hálfleikurinn töluvert betri hjá okkur,“ sagði Ragnar.
Hann telur þó ekki að þörf sé á einhverjum rótækum breytingum hjá Árbæingum eftir tvö töp í fyrstu tveimur leikjunum.
„Það er bara áfram gakk. Við höfum trú á því sem við erum að byggja upp og okkar skipulagi. Þetta er bara tveir leikir.“
Einhverjum þótti Fylkismenn ekki sýna nægilega baráttu og kraft framan af leik og Ragnar sagði að vel væri hægt að taka undir það.
„Alla vega í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik var meiri kraftur og barátta og trú á verkefninu. Þá vorum við 2:0 undir og höfðum litlu að tapa. Í fyrri hálfleik létum við ýta okkur og þeir voru grimmari. Það er ekki nógu gott.“