Norðmaðurinn Anders Besseberg, fyrrverandi forseti alþjóða skíðaskotfimisambandsins, hefur verið ákærður fyrir spillingu af ríkissaksóknaraembættinu í Noregi.
Besseberg er gefið að sök að hafa sópað fjölda mála er lúta að lyfjamisferli Rússa undir teppið gegn því að þiggja mútur í formi úra, veiðiferða, vændiskvenna og afnota af bíl.
Ríkissaksóknarinn Marianne Djupesland sagði næg sönnunargögn til staðar sem sýni fram á að Besseberg hafi þegið mútur um tíu ára skeið, á árunum 2009 til 2018. Hann var forseti sambandsins árin 1992 til 2018.
Hann er sagður hafa þegið að minnsta kosti 165.000 evrur frá rússneskum embættismönnum og þekkst boð þeirra um veiðiferðir og þjónustu vændiskvenna gegn því að fela fjölda tilvika um lyfjamisferli Rússa ásamt því að greiða götu Rússa með því að gæta hagsmuna þeirra.
Besseberg, sem er 77 ára gamall, neitar sök.