Glímukóngurinn fór beint á sjúkrahús

Einar Eyþórsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir með Grettisbeltið og Freyjumenið …
Einar Eyþórsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir með Grettisbeltið og Freyjumenið á laugardag. Ljósmynd/Glímusamband Íslands

Einar Eyþórsson úr Mývetningi, sem varð glímukóngur Íslands í fyrsta sinn á laugardag, meiddist illa á fæti í fyrri úrslitaglímu sinni við Hákon Gunnarsson.

Akureyri.net greinir frá því að Einar hafi orðið fyrir meiðslunum í síðustu umferð mótsins þar sem jafnglími varð á milli hans og Hákons.

Af þeim sökum þurftu Einar og Hákon að glíma til þrautar að nýju svo unnt væri að skera úr um hvor þeirra yrði glímukóngur Íslands.

Þrátt fyrir meiðslin tókst Einari að hafa betur og vinna til Grettisbeltisins. Tók hann þátt í Íslandsglímunni í 11. sinn og var sigurinn því einkar kærkominn.

Í samtali við Akureyri.net sagði Einar að brjósk hafi losnað á milli beina í ristinni í fyrri glímunni og að ástandið hafi versnað enn frekar í síðari glímunni.

Í miðju samtali við miðilinn mættu tveir sjúkraflutningamenn á vettvang í íþróttahús Glerárskóla og ákváðu eftir stutta skoðun að koma Einari strax á sjúkrahús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert