Meistaraflokkslið kvenna frá Akureyri í boltaíþróttum hafa í aprílmánuði reglulega heimsótt Stjörnuna í Garðabæinn og munu halda því áfram út mánuðinn.
Á heimasíðu Þórs frá Akureyri er vakin athygli á því að knattspyrnulið Þórs/KA hafi mætt Stjörnunni í Garðabænum þann 1. apríl í úrslitaleik deildabikarsins. Liðin mætast svo aftur þann 26. apríl, einnig í Garðabænum, í fyrstu umferð Bestu deildarinnar.
Körfuknattleiksleið Þórs á þá í einvígi við Stjörnuna um sigur í 1. deild kvenna. Þar sem oddaleik þarf til þess að skera úr um sigurvegara einvígisins er Þór á leið til Garðabæjar í þriðja sinn í mánuðinum annað kvöld eftir að hafa áður mætt liðinu þar 5. og 12. apríl.
Loks er handknattleikslið KA/Þórs í þann mund að hefja leik í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn og mætir Stjörnunni, að sjálfsögðu í Garðabæ, í kvöld. Fari einvígið í oddaleik gæti KA/Þór þurft að ferðast aftur til Garðabæjar þann 23. apríl næstkomandi.
Leikir kvennaliða frá Akureyri gegn Stjörnunni í Garðabæ verða því að minnsta kosti sex í apríl og gætu alls orðið sjö.