Karlalandslið Íslands í íshokkí tapaði í dag fyrir Króatíu, 6:2, í annarri umferðinni á heimsmeistaramótinu, A-riðli 2. deildar, sem nú stendur yfir á Spáni.
Íslenska liðið, sem vann sig upp úr B-riðlinum á síðasta móti, tapaði 4:1 fyrir Georgíu í fyrstu umferðinni í gær og er því án stiga eftir tvær umferðir.
Króatar komust í 2:0 eftir níu mínútna leik og þannig var staðan eftir fyrsta leikhluta.
Jóhann Már Leifsson minnkaði muninn í 2:1 um miðjan annan leikhluta en því svöruðu Króatar með þremur mörkum á sjö mínútum og komust í 5:1.
Þeir bættu svo við sjötta markinu snemma í þriðja og síðasta leikhluta áður en Emil Alengård minnkaði muninn fyrir Ísland og lokatölur voru 6:2.
Króatar höfðu sigrað Ástralíu 6:4 í fyrstu umferðinni og þá unnu Spánverjar Ísraelsmenn örugglega, 8:2.
Síðar í dag mætast Ísrael - Georgía og Spánn - Ástralía en Ísland mætir Ástralíu í þriðju umferðinni á miðvikudaginn.