Hamar og Afturelding náðu í gærkvöld undirtökunum í undanúrslitaeinvígjum Íslandsmóts karla í blaki.
Íslandsmeistarar Hamars fengu þá Vestra í heimsókn til Hveragerðis og unnu öruggan sigur, 3:0. Hrinurnar enduðu 25:20, 25:13 og 25:20.
Afturelding tók á móti KA að Varmá og þar byrjuðu Akureyringarnir betur en þeir unnu fyrstu hrinuna 25:22.
KA komst í 4:0 í annarri hrinu en þá tók þjálfari Aftureldingar, Borja Gonzales, leikhlé og las yfir sínum mönnum. Mikil stemning myndaðist í liðinu og á áhorfendapöllunum, úr varð spennandi og skemmtileg hrina sem Afturelding vann með minnsta mun, 25:23.
Þriðja hrinan var keimlík þeirri annarri og aftur vann Afturelding 25:23. Í fjórðu hrinu komst KA í 16:11 en Afturelding svaraði með sex stigum í röð og vann að lokum 25:20, og leikinn þar með 3:1.
Stigahæstur í liði KA manna var Miguel Mateo með 20 stig og hjá Aftureldingu var Hafsteinn Már Sigurðsson stigahæstur með 19 stig og Atli Fannar Pétursson var með 15 stig.
Leikir númer tvö fara fram á Ísafirði og Akureyri á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta, klukkan 14. Þar geta Hamar og Afturelding tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu, en Vestri og KA þurfa sigra til að knýja fram oddaleiki sem þá færu fram á sunnudag, í Hveragerði og á Akureyri.