Glæsilegur lokakafli tryggði Íslandi mikilvægan sigur á Ástralíu, 4:2, í 2. deild A á heimsmeistaramóti karla í íshokkí í Madríd á Spáni í dag.
Ísland lenti tvisvar undir í leiknum en Níels Hafsteinsson jafnaði í 1:1 á 15. mínútu. Staðan var lengi 2:1, Áströlum í hag, en á síðustu fimm mínútunum snerist leikurinn gjörsamlega við.
Andri Már Mikaelsson jafnaði fyrir Ísland, 2:2, þegar fimm mínútur voru eftir og hann skoraði aftur tveimur mínútum síðar, þannig Ísland var komið yfir í fyrsta sinn í leiknum.
Hálfri mínútu fyrir leikslok gulltryggði síðan Jóhann Már Leifsson sigurinn þegar hann skoraði í tómt mark Ástrala, 4:2, eftir sendingu frá Hákoni Magnússyni sem lagði líka upp mörkin tvö á unda.
Ísland náði þarna í sín fyrstu stig eftir að hafa tapað fyrir Georgíu og Króatíu í tveimur fyrstu umferðunum. Ástralir eru án stiga, eins og Ísraelsmenn, sem steinlágu, 12:1, fyrir Króötum fyrr í dag.
Ísland á nú alla möguleika á að halda sæti sínu í A-riðli 2. deildar en neðsta liðið fellur niður í B-riðil. Ísland mætir Spáni á föstudag og Ísrael í lokaumferðinni á laugardaginn.