„Étið alveg eins og skepna“

Eyþór Ingólfsson Melsteð keppir nú í fjórða sinn í Sterkasta …
Eyþór Ingólfsson Melsteð keppir nú í fjórða sinn í Sterkasta manni heims. Undirbúningur fyrir slíka þolraun stendur að hans sögn allt árið og gengur út á miklar og þungar lyftingar og gríðarlegt át. Ljósmynd/Ásrún Ösp Vilmundardóttir

„Ég er hérna í fjórða skiptið,“ segir Eyþór Ingólfsson Melsteð aflraunamaður í samtali við mbl.is en Eyþór er, þegar þetta er skrifað, að hefja þá rimmu sem mun skera úr um hvort hann komist í úrslit í keppninni Sterkasti maður heims sem nú fer fram í Myrtle Beach í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Eyþór er í þriðja sæti í sínum riðli og fyrirkomulag keppninnar þannig að fyrsta sæti hvers riðils fer sjálfkrafa í úrslit en svo heyja keppendur í öðru og þriðja sæti með sér bráðabana um hvor þeirra gangi til úrslitakeppni.

„Keppnin hefur verið hérna í Bandaríkjunum nokkur ár í röð núna,“ segir Eyþór sem nú keppir í fjórða sinn sem fyrr segir. Segir hann vettvanginn hafa verið Sacramento í Kaliforníu síðustu tvö skipti og Flórída skiptin tvö þar á undan.

Oftast eini Íslendingurinn – þó ekki nú

„Fyrsta árið lenti ég í fjórða sæti í mínum riðli og komst ekki upp í úrslit, 2021 lenti ég svo í tíunda sæti í úrslitunum og í fyrra í níunda sæti í úrslitum,“ rifjar Eyþór upp en 30 manns hefja keppni hverju sinni og eru frá flestum heimshornum. Síðustu þrjú ár hefur Eyþór verið eini Íslendingurinn en nú er Kristján Jón Haraldsson staddur með honum vestanhafs.

„Hann kom hingað sem varamaður og er tekinn inn bara fimm mínútum fyrir mót sem keppandi,“ segir Eyþór frá, „hann er þá í raun bara á biðlista að komast inn. Það koma alltaf tveir varamenn með út, bara ef eitthvað klikkar hjá einhverjum, í upphitun fyrir keppnina eða þegar við erum að prófa búnaðinn, veikindi eða eitthvað slíkt,“ útskýrir hann.

Keppnisgreinar eru margar gamalkunnar frá keppnunum um sterkasta mann heims á níunda áratugnum. „Núna er búið að keppa í réttstöðulyftu sem er gert í vél, Conan's wheel, sem er svona löng súla sem við löbbum í hringi með, ég vann þar í mínum riðli, svo er loading race búið, þá hlöðum við fimm hlutum upp á pall og ég var í öðru sæti þar, og svo að lokum log lift ladder sem er drumbalyfta, þá lyftum við fimm drumbum og hver er öðrum þyngri,“ segir Eyþór frá.

Miklar og þungar lyftingar

Í dag mun hann svo keppa í kastgrein og í kjölfar hennar eru allar líkur á að hann fari í það sem kallað er stone-off sem er bráðabaninn milli keppenda í öðru og þriðja sæti riðilsins og felst í að lyfta steinum yfir hindrun í ákveðinni hæð.

„Úrslitin eru svo á laugardag og sunnudag og þá er keppt í sex greinum,“ segir Eyþór og bætir því við aðspurður að undirbúningur fyrir aflraunamót á borð við þetta standi í raun allan ársins hring en hann æfir hvort tveggja í Thor's Power Gym, æfingastöð Hafþórs Júlíusar Björnssonar, og í Jakabóli hjá Magnúsi Ver Magnússyni.

„Þetta eru að sjálfsögðu bara miklar og þungar lyftingar og étið alveg eins og skepna. Ég er með næringarþjálfara og æfingaþjálfara líka og svo er auðvitað heilmikið ferli að jafna sig eftir æfingar, þetta er bara helvítis hellings vinna,“ segir Eyþór sem hefur keppt í hefðbundnum kraftlyftingum á ferli sínum, „en ég hef ekki haft mikinn tíma til þess undanfarin ár, ég er búinn að vera að keppa svo mikið í aflraunum að ég hef ekki haft tíma til að keyra mig upp fyrir keppni í kraftlyftingum,“ segir hann frá.

Mót allan ársins hring

Eyþór er nýkominn úr keppninni Sterkasti maður Evrópu og er nú að berjast um sæti í úrslitum í Sterkasta manni heims. Fram undan blasir ekkert sérstakt við í keppnismennsku. „Það eru þessi mót heima á Íslandi í sumar sem ég ætla bara að sjá til með, maður sér hvernig maður verður eftir þetta, ég ætla ekki að setja mikla pressu á sjálfan mig að keppa þar. Svo er spurning bara með haustið, það eru mót erlendis allan ársins hring,“ segir Eyþór Ingólfsson Melsteð að lokum, á leið í lokarimmuna um hverjir keppa til úrslita í Sterkasta manni heims í Myrtle Beach um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert