Má snúa aftur eftir hjartastopp

Damar Hamlin getur haldið ferli sínum áfram.
Damar Hamlin getur haldið ferli sínum áfram. AFP/Timothy T. Ludwig

Damar Hamlin, leikmaður Buffalo Bills í bandarísku NFL-deildinni í ruðningi, hefur fengið grænt ljós á að hefja æfingar og keppni að nýju í kjölfar þess að hafa farið í hjartastopp í leik liðsins gegn Cincinnati Bengals á síðasta tímabili.

Rúmlega þrír og hálfur mánuður er síðan Hamlin, sem er 25 ára gamall, féll við og fór í hjartastopp eftir harkalegt samstuð við leikmann Cincinnati.

Hann var fluttur með hraði á sjúkrahús í Cincinnati og var haldið sofandi í öndunarvél fyrst um sinn. Bati Hamlins í kjölfarið hefur hins vegar verið vonum framar.

Þrír sérfræðingar hafa gefið honum grænt ljós á að halda ferli sínum áfram og er Hamlin þegar mættur til æfinga á undirbúningstímabili Buffalo.

„Þetta atvik breytti lífi mínu en markar ekki endalok sögu minnar. Hjarta mitt tilheyrir enn íþróttinni. Ég elska hana. Þetta er eitthvað sem ég vil sanna fyrir sjálfum mér, engum öðrum.

Ég vil bara sýna fólki að það er valkostur að óttast, að það sé hægt að halda áfram í einhverju án þess að búa yfir svörunum eða vita hvað er að finna við enda ganganna.

Þú gætir fundið fyrir kvíða, þú gætir upplifað ýmislegt, en þú getur líka haldið áfram. Ég vil að það endurspegli hver ég er,“ sagði Hamlin í samtali við ESPN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert