Fimm úrskurðaðir í bann vegna veðmála

Úr leik Detroit Lions fyrir nokkrum árum.
Úr leik Detroit Lions fyrir nokkrum árum. AFP

Fimm leikmenn í bandarísku NFL-deildinni í ruðningi hafa verið úrskurðaðir í keppnisbann fyrir að hafa brotið gegn reglum deildarinnar um veðmál.

Þær reglur kveða á um að engum leikmanni er leyfilegt að veðja á leiki í NFL-deildinni yfir höfuð og sömuleiðis ekki að veðja á aðra íþróttaleiki ef leikmenn eru staddir á svæði á vegum liða sinna eða deildarinnar.

Um fjóra leikmenn Detroit Lions er að ræða, þá Jameson Williams, Stanley Berryhill, Quintez Cephus og C.J. Moore, ásamt Shaka Toney, leikmanni Washington Commanders.

Williams og Berryhill fengu sex leikja bann fyrir að veðja á leiki utan NFL-deildarinnar á meðan þeir voru staddir í húsnæði á vegum NFL.

Þeir Cephus, Moore og Toney verða hins vegar í banni allt næsta tímabil eftir að hafa veðjað á leiki í NFL-deildinni.

Í tilkynningu frá deildinni segir að ekkert bendi til þess að neinn leikmannanna hafi stuðst við innherjaupplýsingar eða haft áhrif á úrslit leikja með neinum hætti.

Detroit hefur tekið ákvörðun um að rifta samningum Cephus og Moore á meðan rætt verður við Williams og Berryhill um alvarleika málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert