Ísland féll eftir tap gegn Ísrael

Andri Már Mikaelsson var markahæsti leikmaður Íslands á mótinu en …
Andri Már Mikaelsson var markahæsti leikmaður Íslands á mótinu en hann skoraði sitt sjötta mark í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland er fallið úr A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí en liðið tapaði fyrir Ísrael, 7:3, í lokaumferð riðilsins í dag.

Fyrir leik voru Ísland og Ástralía með þrjú stig og Ísrael án stiga. Sigur Ísraels gerði það að verkum að eftir lokaumferðina voru öll þrjú liðin með þrjú stig og því giltu innbyrðisviðureignir.

Þar voru öll lið með þrjú stig en Ísland var með lakasta markamismuninn og endar því í neðsta sæti. Ástralía var með fjögur mörk í plús en Ísland og Ísrael með tvö mörk í mínus. Ísrael hins vegar var með átta mörk skoruð en Ísland bara sjö og því endar Ísrael ofar. Þess má geta að Ísrael þurfti að vinna leikinn með fjórum mörkum, líkt og þeir gerðu, en þriggja marka sigur hefði ekki dugað til.

Það voru Akureyringarnir Andri Már Mikaelsson, Gunnar Arason og Heiðar Jóhannsson sem skoruðu mörk Íslands í leiknum en Andri endar sem markahæsti leikmaður liðsins á mótinu með sex mörk.

Íslenska liðið er því fallið úr A-riðli deildarinnar niður í B-riðilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert