Afturelding í úrslit eftir oddahrinu í oddaleik

Afturelding tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Íslandsmótsins í …
Afturelding tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Íslandsmótsins í blaki. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Afturelding tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Íslandsmótsins í blaki kvenna með því að hafa betur gegn Álftanesi, 3:2, í æsispennandi oddaleik liðanna í undanúrslitunum, sem fram fór á Álftanesi.

Afturelding vann fyrstu hrinu nokkuð þægilega, 25:20 og aðra hrinu enn þægilegar, 25:17.

Álftanes var því komið með bakið upp við vegg en beit frá sér og vann þriðju hrinu sannfærandi, 25:16.

Fjórða hrina var æsispennandi þar sem Afturelding leiddi lengi vel. Álftnesingar sneru hins vegar taflinu við og unnu hana með minnsta mun, 25:23, og staðan var því orðin jöfn, 2:2.

Oddahrinu þurfti því til þess að knýja fram sigur.

Í henni fóru Álftnesingar stórkostlega af stað og leiddu 6:1. Afturelding klóraði í bakkann en enn héldu heimakonur forystunni, eða allt þar til að Afturelding náði að jafna í 11:11.

Gestirnir úr Mosfellsbænum náðu forystunni í fyrsta sinn í oddahrinunni þegar þeir komust í 12:11 og eftir gífurlega spennu tókst þeim að vinna hana með minnsta mun, 15:13, leikinn um leið 3:2 og einvígið 2:1.

Afturelding mun mæta KA í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn, en í því mun þurfa þrjá sigurleiki til þess að standa uppi sem sigurvegari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert