Breski langhlauparinn Sir Mo Farah hljóp sitt síðasta maraþon á einkar farsælum ferli þegar hann tók þátt í London-maraþoninu í gær.
Farah, sem er fertugur, hafnaði í níunda sæti í maraþoninu.
Kelvin Kiptum frá Keníu stóð uppi sem sigurvegari í gær og setti um leið mótsmet.
Sifan Hassan frá Hollandi hrósaði svo óvænt sigri í kvennaflokki í sínu fyrsta maraþoni á ferlinum.
„Þetta er komið gott hjá mér. Mig hefur alltaf langað til að taka þátt í London-maraþoninu. Ég hef tekið þátt í mörgum maraþonum og þetta verður mitt síðasta á vegferð minni.
Ég ætla að njóta þess og gera mitt allra besta. Maraþon eru löng og það að sjá svona mikið af fólki styðja við bakið á manni er þýðingarmikið,“ sagði Farah í samtali við BBC Sport áður en hann hljóp í gær.
Farah vann til tvennra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í London árið 2012 og gerði slíkt hið sama á leikunum í Ríó de Janeiro í Brasilíu fjórum árum síðar.
Á báðum Ólympíuleikunum reyndist Farah hlutskarpastur í 5.000 metra og 10.000 metra hlaupum.
Á ferlinum vann hann einnig til sex gullverðlauna á heimsmeistaramótum og fimm gullverðlauna á Evrópumótum. Öll gullverðlaunin vann Farah í 5.000 og 10.000 metra hlaupum.
Hann hefur einnig gert sig gildandi í maraþoni og hálfmaraþoni og vann til að mynda Chicago-maraþonið árið 2018 og hálfmaraþonið í Newcastle sex ár í röð, frá 2014 til 2019.