Leikstjórnandi Aaron Rodgers hyggst nú ganga til liðs við bandaríska NFL-liðið New York Jets eftir 18 ár í herbúðum Green Bay Packers.
ESPN greinir frá þessu en tilkynnt verður um félagaskiptin síðar í kvöld að því er fram kemur í frétt ESPN.
Rodgers, sem er 39 ára gamall, hefur verið einn besti leikstjórnandi deildarinnar undanfarinn áratug en hann hefur fjórum sinnum verið valinn besti leikmaður deildarinnar, síðast árið 2021.
Hann hefur einu sinni orðið NFL-meistari, tímabilið 2010, þegar Green Bay hafði betur gegn Pittsburgh Steelers í Ofurskálarleiknum en Green Bay vann leikinn 31:25 og var Rodgers valinn besti leikmaður Ofurskálarleiksins.
New York Jets hefur ekki riðið feitum hesti frá bandarísku NFL-deildinni undanfarin ár en liðið hefur einu sinni orðið meistari, árið 1968.