„Við fórum inn í þetta mót án allra væntinga, þetta var fyrsta mótið mitt eftir fjögurra ára hlé,“ segir Elín Melgar Aðalheiðardóttir í samtali við mbl.is en hún kom sá og sigraði í klassískri bekkpressu á Íslandsmeistaramótinu í greininni á sunnudaginn, fór með sigur af hólmi í eigin flokki, -69 kg, þar sem þær voru fimm sem öttu kappi auk þess sem hún sigraði á heildarstigum og varð þar með sigurvegari í opnum flokki.
Elín er nýkomin úr barneignum og meistaranámi, eignaðist tvö börn, 2018 og 2020, og lauk námi í menntunarfræði leikskóla frá Háskóla Íslands, MT-gráðu, en hún starfar sem deildarstjóri í leikskóla. „Þegar maður þarf að fara að hugsa um einhverja aðra en sjálfan sig fer maður að æfa öðruvísi,“ segir Elín sem sneri aftur til keppni með látum og lyfti 90 kílógrömmum í bekknum í algjörlega fumlausri lyftu sem blaðamaður fékk að sjá myndskeið af.
Þó var hún ekki einu sinni að æfa allan tímann sem hún tók sér hlé og hafði heimsfaraldurinn margumræddi þar sín áhrif. „Það náttúrulega mátti ekkert mæta í ræktina á tímabili, ég held að ég hafi ekkert byrjað að lyfta aftur fyrr en í september eða október núna í fyrra. En vöðvaminnið er gott, sérstaklega ef maður er með góðan grunn, og ég æfði sund í rúm tíu ár,“ segir Elín sem lyfti samhliða sundæfingum sínum og einn daginn var stálið orðið vatninu yfirsterkara.
„Við ákváðum auðvitað, eins og alltaf á svona mótum, að byrja á einhverju sem maður veit að maður tekur alveg og hefur tekið á æfingum svo ég byrjaði í 85 kílóum,“ heldur þessi þrautreynda íþróttakona áfram sem fram til þessa hefur talað um sig í fleirtölu í tengslum við þetta mót.
Við eftirgrennslan blaðamanns kemur í ljós að skýringin er auðvitað samráð íþróttamanns og þjálfara. Þar reynist enginn annar á ferð en sjálfur Ingimundur Björgvinsson en ljóst er að fáir þjálfarar á landinu hafa komið við sögu fleiri afrekskvenna á sviði lyftinga en Ingimundur sem sjálfur er gallharður keppnismaður og ofan á allt saman maður Elínar.
Næsta þyngd á dagskrá voru 87,5 kg og sem fyrr segir kórónaði Elín svo för sína á mótið á sunnudaginn með 90 kg lyftu sem lék í höndum hennar. „Ég tók 90 kíló síðast árið 2017 og var sem sagt að jafna minn gamla árangur síðan áður en ég varð ólétt,“ segir hún frá, „lyftingarnar hafa ekkert verið alveg númer eitt hjá mér núna, við erum komin með tvö börn og erum með hvolp líka,“ segir Elín af heimilishaldi
„Ég er ánægð ef ég næ þremur æfingum á viku núna. Ég reyni að skipuleggja þær vel og einblíni frekar á gæði æfinganna en fjöldann,“ útskýrir Elín af augljósri hugsjón og bætir því við í lokaorðum sínum að hún gleðjist mjög yfir að vera komin á sama stað í lyftingaforminu og hún var fyrir barneignir.