„Mótið um helgina var í raun létt tilraunastarfsemi fyrir næstkomandi stórmót,“ segir Sóley Margrét Jónsdóttir, lyftingakona úr Breiðabliki og nýbakaður Íslandsmeistari í +84 kg flokki og stigahæst kvenna í opnum flokki í bekkpressu á Íslandsmeistaramótinu í greininni sem fram fór á sunnudaginn með metþátttöku.
„Ég tók þátt í mótinu um helgina með þá áherslu að kanna tækni og hvernig ég vildi útfæra mínar lyftur fyrir Evrópumeistaramótið 7. maí,“ útskýrir Sóley og kveðst mjög sátt við för sína á mótið.
„Mótið gaf mér heilmiklar upplýsingar um hverju ég ætla að breyta og betrumbæta fyrir EM og það var líka mikill léttir að fá staðfestingu á að bekkpressan mín væri lögleg og ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessum nýju og umdeildu bekkpressureglum,“ heldur hún áfram.
Vísar Sóley þar til reglna Alþjóðakraftlyftingasambandsins sem mbl.is fjallaði um í tengslum við Reykjavíkurleikana í janúar og ganga í stuttu máli út á að efsti hluti axlarliðar verði að vera í beinni línu við neðri hluta olnboga þegar stöngin mætir brjóstkassa keppandans. „Ég er persónulega hlynnt þessum nýju reglum og held að þær muni gera íþróttinni gott,“ er álit Sóleyjar.
Hún lyfti 170 kg á mótinu sem var hennar eina gilda lyfta og nægði henni til sigurs í opna flokknum. Hennar besti árangur í bekknum er 192,5 kg en í hinum greinunum 280 kg í hnébeygju og 220 í réttstöðulyftu.
Fram undan hjá Sóleyju er framangreint Evrópumeistaramót í Thisted í Danmörku og kveður hún uppkeyrsluna fyrir mótið hafa verið nokkuð óhefðbundna en gengið sæmilega þrátt fyrir það. „Frá HM í nóvember fór ég í algjört lyftingabann, þangað til fyrir níu vikum, til að róa aðeins niður bakmeiðsli. Þessi uppkeyrsla seinustu vikurnar hefur því verið keyrð á ofsahraða og með miklum þyngdaraukningum í hverri viku,“ segir hún frá.
Bekkpressumótið á sunnudaginn var seinasti hlekkurinn í uppkeyrslu hennar og segir hún minni þyngdir nú fram undan og hvíld fram að mótinu í Danmörku.
„Ég er gífurlega spennt fyrir komandi móti, sigurlíkurnar eru miklar ef allt gengur samkvæmt áætlun á keppnisdeginum sjálfum. Mér líður ágætlega í musterinu og er tilbúin að takast á við þetta verkefni,“ segir Sóley sem um þessar mundir telst í fyrsta sæti í sínum flokki á EM miðað við þyngd í samanlögðu þar sem hún á 675 kg. Næst á eftir henni er úkraínskur keppinautur hennar með 620 kg samanlagt svo spennandi verður að sjá hvernig leikar fara á efsta degi í Thisted.