Kviknaði í bifreið Gasly

Pierre Gasly hlaut ekki skaða af eftir að eldur kviknaði …
Pierre Gasly hlaut ekki skaða af eftir að eldur kviknaði í bifreið hans. AFP/Natalia Kolesnikova

Keppni í Formúlu 1 hefst að nýju um helgina eftir fjögurra vikna hlé þegar Aserbaídsjan-kappaksturinn fer fram í Bakú. Á æfingu í dag kviknaði í bifreið Pierre Gasly hjá Alpine.

Tímataka fyrir kappaksturinn fer fram í hádeginu í dag en í morgun voru aksturskapparnir mættir á kappakstursbrautina til þess að taka nokkra æfingahringi.

Ekki leið á löngu þar til eldur var kominn upp í aftari hluta Alpine-bifreiðar Gasly sem nam strax staðar. Rauðum fána var þegar í stað flaggað og æfingin stöðvuð.

Mikinn reyk lagði frá ökutækinu en tókst Gasly að forða sér út úr því áður en öryggisverðir á svæðinu slökktu eldinn snögglega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert