BH Íslandsmeistari í annað sinn

BH fagnar Íslandsmeistaratitlinum.
BH fagnar Íslandsmeistaratitlinum. Ljósmynd/Borðtennissamband Íslands

BH varð í gær Íslandsmeistari í liðakeppni karla í borðtennis í annað sinn, en BH tryggði Íslandsmeistaratitilinn með sigri á KR.

KR-ingar eru ríkjandi Íslandsmeistarar en urðu í öðru sæti í deildakeppninni í ár á eftir BH-ingum sem urðu nú deildarmeistarar. Leikmenn BH mættu betur til leiks og komust í 4:0 en vinna þarf sex leiki til að sigra viðureignina.

KR veitti hins vegar BH harða keppni í fyrstu tveimur leikjunum, þar sem þurfti oddalotu til að knýja fram sigur. Leikið er á tveimur borðum samtímis í deildakeppni og staðan eftir sex leiki var 5:1, BH, í vil.

Í næstu viðureign var keppt í tvíliðaleik þar sem KR-ingar unnu og staðan var orðin 5:2. Að lokum var það Magnús Gauti Úlfarsson sem landaði titlinum fyrir BH-inga með öruggum sigri í lokaleiknum.

Í liði Íslandsmeistara BH voru Magnús Gauti Úlfarsson, Jóhannes Bjarki Tómasson Urbancic, Birgir Ívarsson og Pétur Marteinn Tómasson Urbancic. Lið KR inga var skipað Ellerti Georgssyni, Gesti Gunnarssyni, Bedö Nerbo og Skúla Gunnarssyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert