Serbinn Novak Djokovic, efsti maður heimslistans í tennis, fær að keppa á Opna bandaríska mótinu í ár, US Open, en hann fékk ekki að keppa þar á síðasta ári þar sem hann neitaði að láta bólusetja sig við kórónuveirunni.
Til þessa hafa útlendingar þurft að framvísa vottorðum fyrir bólusetningu til að fá að koma til Bandaríkjanna en þær reglur verða felldar úr gildi 12. maí, samkvæmt tilkynningu frá Hvíta húsinu.
Djokovic missti einnig af tveimur öðrum stórmótum í Bandaríkjunum á síðasta ári af sömu ástæðu, í Indian Wells og Miami.
US Open fer fram á Flushing Meadows í New York í ágúst.