Þórhildur Garðarsdóttir hefur verið kjörin formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur, fyrst kvenna.
Þórhildur er fædd í Reykjavík árið 1973. Hún hefur verið virk innan KR sem móðir tveggja barna sem stundað hafa íþróttir hjá félaginu, auk þess að hafa tekið virkan þátt í starfi félagsins á ýmsum sviðum.
Þórhildur er KR-ingum að góðu kunn, hún hefur verið í aðalstjórn félagsins síðastliðin sjö ár og gegnt embætti varaformanns og formanns framkvæmdastjórnar síðustu þrjú ár. Þá hefur Þórhildur þar að auki um árabil verið virk í starfi KR-kvenna.
„Ég er afar stolt af því að vera tekin við sem formaður KR. Okkar bíða ærin verkefni og þar má helst nefna aðstöðumál félagsins, en KR hefur því miður setið eftir þegar kemur að húsnæðismálum.
Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að tryggja að börnum og ungmennum í hverfinu verðin búin sú aðstaða sem þau þurfa,“ er haft eftir Þórhildi í yfirlýsingu KR.