Íslandsmótið í snóker hófst um seinustu helgi þegar 24 spilarar hófu leik á Billiardbarnum. Sigurður Kristjánsson, ríkjandi stigameistari, hóf keppni á sannfærandi sigrum í annarri og þriðju umferð, en datt óvænt út gegn sexfalda Íslandsmeistaranum Jóhannesi B. Jóhannessyni, 7:5.
Jóhannes greip aftur í kjuðann eftir nokkurra ára pásu á þessu tímabili og er kominn í gott form. Hann freistar þess að ná í sjöunda Íslandsmeistaratitilinn. Jóhannes tapaði aðeins tveimur römmum á leið sinni í undanúrslitin og var spilamennska hans frábær.
Þorri Jensson, ríkjandi Íslandsmeistari, hóf titilvörn sína á öruggum sigrum í annarri og þriðju umferð og hafði svo betur gegn Brynjari Valdimarssyni í undanúrslitunum, 7:4.
Þorri og Jóhannes eigast því við í úrslitum á laugardag klukkan 10. Sá sem er fyrri til að vinna níu ramma verður Íslandsmeistari. Þorri hefur í tvígang orðið meistari og Jóhannes varð síðast meistari árið 2016.
Leikurinn verður sýndur á YouTube-rás Billiardbarsins.