Sóley Evrópumeistari með yfirburðum

Sóley hlýðir á þjóðsöng lands elds og ísa með hönd …
Sóley hlýðir á þjóðsöng lands elds og ísa með hönd á brjósti. Þessi helöfluga unga lyftingakona hefur hlaðið á sig verðlaunum á mótum undanfarið, varð Íslandsmeistari í bekkpressu fyrir réttum hálfum mánuði. Ljósmynd/Lára Bogey Finnbogadóttir

Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingakona varð rétt í þessu Evrópumeistari í +84 kg flokki í kraftlyftingum í Thisted í Danmörku og sigraði keppinauta sína tvo í flokknum, þær Valentynu Zahuriuko frá Úkraínu og Amalie Larsson frá Danmörku, með yfirburðum.

Lyfti Sóley 270 kg í hnébeygju, 182,5 í bekkpressu og 207,5 í réttstöðulyftu, samtals 660 kg, hlaut gullverðlaun í fyrstu tveimur greinunum og silfur í réttstöðunni. Var sigur hennar með töluverðum yfirburðum þar sem þær Zahuriuko og Larsson lyftu 622,5 og 577,5 kg í samanlögðu.

Rætt verður við Sóleyju hér á mbl.is síðar í dag en þess má geta að hún er aðeins 21 árs og því „unglingur“ í aldursflokkaskiptingu keppniskraftlyftinga en keppir þó í fullorðinsflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert