Íslenskar valkyrjur á besta aldri settu mark sitt á Evrópumeistaramót öldunga í ólympískum lyftingum í gær og fyrradag en mótið er nú haldið í Waterford á Írlandi. Evrópumetin riðuðu til falls þegar þær Hrund Scheving, Árdís Grétarsdóttir og Helga Hlín Hákonardóttir stigu á lyftingapallinn og tóku á stönginni.
„Það var nú holóttur aðdragandi að mótinu hjá mér, mikið um flensur og dálítið mikil vinna,“ segir Helga Hlín í samtali við mbl.is, héraðsdómslögmaður og þaulreynd keppniskona í ólympískum lyftingum, „en ég var helgíruð í gullið og ætlaði mér algjörlega að taka það,“ heldur Helga Hlín áfram, en hún er móðir hinnar kunnu Úlfhildar Örnu Unnarsdóttur sem getið hefur sér góðan orðstír hér- sem erlendis í meðförum stálsins.
Helga Hlín keppti í -59 kg flokki 50 til 55 ára og voru þær níu í flokknum. Lagði Helga Hlín andstæðinga sína af festu og með slíkum yfirburðum að fjórtán kílóum munaði á henni og þeirri sem silfrið hlaut. Ljón var þó í veginum, mótsklukkan.
„Allt gekk vel fram að fyrstu lyftu hjá mér. Klukka er fyrir framan mann þar sem maður hefur mínútu frá því stangarmennirnir eru búnir að setja lóðin á stöngina,“ segir Helga Hlín frá. „Yfirleitt er hún við hægra horn pallsins fyrir framan mann en af einhverjum ástæðum höfðu þeir núna stillt klukkunni upp beint fyrir framan mig þar sem maður hefur fókusinn í lyftunni. Ég lét þetta setja mig út af laginu og klikkaði á fyrstu lyftunni,“ segir Helga Hlín frá.
Á hún þar við snörunina sem er önnur tveggja keppnisgreina ólympískra lyftinga. Fyrsta lyftan fór þar með í vaskinn, sem Helga Hlín segir mjög slæmt þar sem bráðnauðsynlegt sé, upp á alla framvindu hvers móts að gera, að ná fyrstu lyftu vel og örugglega. „Það er mjög taugatrekkjandi, sérstaklega þar sem ég vissi að ég þyrfti bara að setja inn gilda lyftu til að hafa sigur í snöruninni,“ útskýrir Helga Hlín.
Reyndi hún þá aftur við sömu þyngd, 51 kg, og gekk lyftan vandræðalaust, en er hún hugðist ljúka snöruninni með glæsibrag og rífa þar upp 55 kg var klukkan henni enn þrándur í götu og lyftan fór í vaskinn eins og sú fyrsta.
„Svo við settum okkur svolítið í græðgisgírinn í clean and jeark-inu [jafnhendingu, síðari keppnisgreininni] og ég negldi bara á fyrstu tvær lyfturnar. Sjötíu kílóin fóru auðveldlega upp og svo var ég grátlega nálægt því að ná 73 kílóum,“ segir hún frá og vísar „við“ til þjálfara hennar og eiginmanns en þar fer enginn annar en Unnar Helgason sem oft hefur komið við sögu á stórmótum. Fyrsta lyftan í jafnhendingunni var 65 kg. Nægði árangurinn Helgu Hlín til að gjörsigra í -59 kg flokknum.
„Ég á fullt inni og ætla að mæta á heimsmeistaramótið í Póllandi í lok ágúst, maður er alltaf að afla sér keppnisreynslu,“ segir Helga Hlín Hákonardóttir að lokum, sátt eftir glæsilega frammistöðu og gull á EM á Írlandi.
Hrund Scheving fór með sigur af hólmi í -71 kg flokki 45 til 49 ára þar sem þær kepptu fjórar. Setti Hrund þrjú Evrópumet og jafnaði tvö heimsmet. Hún lyfti 68 kg í snörun, reyndi því næst við 72 kg en missti þá jafnvægið og datt fram á hnén. Lét hún það ekki á sig fá heldur reyndi aftur við sömu þyngd og lyfti henni þá örugglega.
Í jafnhendingu lyfti hún 85 kg nokkuð örugglega og fór því næst í 90 kg sem tveir dómarar gáfu hvítt ljós á en einn rautt og vildi þar með ógilda. Kviðdómur skarst þá í leikinn og dæmdi lyftu Hrundar ógilda á svokölluðu „press out“ sem það kallast þegar olnbogum er ekki læst strax í byrjun heldur stönginni ýtt (hægt) upp. Að lokum lyfti hún 93 kg með glæsibrag og lauk keppni með 165 kg í samanlögðu og gullmedalíu. Auk þess varð Hrund stigahæst allra kvenna í 45 til 49 ára flokknum, þvert á þyngdarflokka.
Árdís Grétarsdóttir glímdi við átta keppinauta í -64 kg flokki 50 til 54 ára og hreppti þar þriðja sætið, setti Evrópumet á sínu fyrsta stórmóti.
Árdís opnaði með öruggum 50 kg í snörun, þyngdi því næst í 54 kg sem fóru upp og endaði á að reyna við 56 kg þar sem aðeins vantaði herslumuninn hjá henni.
Hún hóf leika á 70 kg í jafnhendingu sem var Evrópumet í flokknum. Ekki stóð það þó lengi þar sem Mette Jespen frá Danmörku hafði 72 kg í annarri tilraun sinni. Reyndi Árdís í framhaldinu við 74 og 75 kg en hafði ekki erindi sem erfiði á þessu móti.
Röðuðu Norðurlandabúar sér á verðlaunapallana í þyngdarflokknum, Danmörk, Svíþjóð og Ísland í fyrsta, öðru og þriðja sætinu.
Glæsileg frammistaða íslensku kvennanna í sannkallaðri stálhríð í hinum írsku véum.