Stórmeistarinn Guðmundur Kjartansson og Lenka Ptácníková eru efst á Íslandsmótinu í skák að lokinni þriðju umferð sem fram fór í kvöld á Ásvöllum. Þau eru jöfn með 2 og hálfan vinning hvort.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skákfélagi Íslands. Í þriðju umferð sigraði Lenka gegn Jóhanni Ingvasyni og Guðmundur vann Hjörvar Stein Grétarsson Íslandsmeistarann í riddaraendatafli.
Í gær var frá því greint að Henrik Danielsen leiddi mótið en Hannes Hlífar Stefánsson sigraði gegn honum í dag. Nú situr Henrik í 3.-5. sæti ásamt Hannesi, og Vigni Vatnari Stefánssyni en allir eru þeir með 2 vinninga. Vignir hafði sigur gegn Jóhanni Hjartarsyni.
Aleksandr Domalchuk-Jonasson lagði stórmeistarann Braga Þorfinnsson að velli. Eina jafnteflisskák umferðarinnar varð hjá alþjóðlegu meisturunum Hilmi Frey Heimssyni og Degi Ragnarssyni.
Fjórða umferð mun fara fram á morgun. Þá teflir Guðmundur við Jóhann Hjartarson, Lenka við Vigni Vatnar, Henrik við Hilmi Frey og Hannes mætir Aleksandr.