Guðmundur Kjartansson stórmeistari er efstur á Íslandsmótinu í skák að lokinni fjórðu umferð sem fram fór í kvöld. Guðmundur vann Jóhann Hjartarson með afar glæsilegri taflmennsku og hefur því þrjá og hálfan vinning.
Stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson og Vignir Vatnar Stefánsson eru í 2.-3. sæti með þrjá vinninga hvor. Báðir unnu þeir sínar skákir í kvöld. Hannes gegn Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Vignir gegn Lenku Ptácníková en hún var efst í gær ásamt Guðmundi.
Lenka og Hilmir Freyr Heimsson eru því í 4.-5. sæti með tvo og hálfan vinning. Hilmir vann stórmeistarann Henrik Danielsen í dag.
Bragi Þorfinnsson vann Jóhann Ingvason en Dagur Ragnarsson og Hjörvar Steinn Grétarsson gerðu jafntefli. Sá síðarnefndi er Íslandsmeistari síðustu tveggja ára en er aðeins í 7.-10. sæti með einn og hálfan vinning.
Aðeins fjórum umferðum er lokið af ellefu. Sú fimmta mun fara fram á morgun en þá mætast Vignir og Guðmundur.