Írski bardagakappinn Conor McGregor hyggst snúa aftur til keppni í UFC í blönduðum bardagalistum á árinu.
Í UFC eru strangar reglur um lyfjanotkun þar sem allt bardagafólk þarf að vera meðlimir í USADA, lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, til þess að geta tekið þátt í bardögum.
McGregor sagði sig úr USADA eftir að hafa lotið í lægra haldi gegn Dustin Poirier árið 2021, þar sem Írinn fótbrotnaði.
Í yfirlýsingu frá USADA, sem MMA Junkie birti, segir að samtökin búist við því að McGregor gangi aftur í þau sem fyrst.
Í samtali við Matchroom Boxing í gær sagði McGregor að hann hygðist snúa aftur í búrið fyrir árslok og bindi vonir við að mæta Michael Chandler í desember.
Dana White, forstöðumaður UFC, staðfesti í viðtali við Pat McAfee að McGregor myndi snúa aftur í búrið.