Litlu mátti muna að illa færi þegar að svifrá brotnaði í miðri keppnisseríu á Norðurlandamóti unglinga í fimleikum í dag en mótið fer fram í Helsinki í Finnlandi.
Rökkvi Kárason, landsliðsmaður Íslands, var að undirbúa sig fyrir kraftmikið afstökk þegar að svifráin gaf sig og féll með miklum látum í jörðina.
Snögg viðbrögð Rökkva í loftinu björguðu honum frá því að lenda illa og meiðast. Rökkvi skaust upp í loft við höggið sem myndaðist þegar svifráin brotnaði en hann gekk sem betur fer heill á húfi frá atvikinu.
Mikil ringulreið skapaðist við slysið og þurfti að ferja nýrri svifrá inn í keppnissal sem skapaði um 15 mínútna töf. Rökkvi fékk þá tækifæri til þess að endurtaka keppnisseríuna að nýju sem hann þáði og sýndi hann nýja seríu með stæl.
Alls komust 10 íslenskir keppendur í úrslit á einstökum áhöldum sem fara fram á morgun. Hér fyrir neðan er listi yfir keppendur og á hvaða áhöldum þau keppa á.
Unglingaflokkur áhaldafimleikar kvenna
- Auður Anna Þorbjarnardóttir - stökk
- Lilja Katrín Gunnarsdóttir - slá
- Kristjana Ósk Ólafsdóttir - gólf
Unglingaflokkur áhaldafimleikar karla
- Lúkas Ari Ragnarsson - gólf og hringir
- Davíð Goði Jóhannsson - stökk
- Stefán Máni Kárason - tvíslá
Youth drengjaflokkur
- Kári Pálmason - gólf, bogahestur, hringir, stökk, tvíslá og svifrá
- Daníel Theodór Glastonbury - hringir og tvíslá
- Ásgeir Smári Ásgeirsson - stökk
- Davíð Þór Bjarnason - svifrá