Úrslitadagur Norðurlandamóts unglinga í áhaldafimleikum fór fram í Helsinki í Finnlandi í dag þar sem Kári Pálmason vann gull og silfur og Auður Anna Þorbjarnardóttir vann til silfurverðlauna.
Kári keppti til úrslita á öllum áhöldum í dag og átti nánast hnökralaust mót. Skilaði frammistaðan honum Norðurlandameistaratitlinum í keppni U14 ára á svifrá og silfri í sama aldursflokki á stökki.
Kári hafnaði í 6. sæti á gólfi, 4. sæti á bogahesti, 4. sæti á hringjum og 4. sæti á tvíslá.
Auður Anna Þorbjarnadóttir sýndi tvö glæsileg stökk sem skiluðu henni silfri í greininni. Var hún hársbreidd frá því að vinna til gullverðlauna, aðeins 0,05 stigum.
Alls kepptu tíu íslenskir keppendur til úrslita á einstökum áhöldum í dag.