Breski hjólreiðakappinn Mark Cavendish sagði fyrr í dag að yfirstandandi keppnistímabil yrði hans síðasta í hjólreiðum. Þessu lýsti hann yfir á blaðamannafundi á Ítalíu.
Á ferli sínum hefur Cavendish unnið 34 dagleiðir í Frakklandshjólreiðunum (f. Tour de France) og hefur ásamt Belganum Eddy Merckx unnið flestar dagleiðir í sögunni í þessari stærstu hjólakeppni heims. Í júlí gefst Cavendish þó tækifæri á að bæta enn í safnið og þannig komast upp fyrir Merckx takist honum að vinna dagleið.
Cavendish er nú staddur á Ítalíu þar sem hann tekur þátt í Ítalíuhjólreiðunum (i. Giro d'Italia) Á blaðamannafundi sagði hann: „Ég hef notið hvers einasta kílómetra af keppninni hingað til, þannig ég tel að þetta sé fullkominn tími til að tilkynna að þetta er mín síðasta Ítalíuhjólreið og 2023 verður mitt síðasta tímabil sem atvinnuhjólreiðamaður.“
Cavendish fór yfir það hversu þakklátur hann væri fyrir hjólreiðarnar og hversu stór hluti af lífi hans þær væru. Sagði hann meðal annars: „Reiðhjólið hefur gefið mér tækifæri til sjá heiminn og að hitta stórkostlegt fólk, margt hvert sem ég get stoltur kallað vini.“ Einnig sagði hann: „Hjólreiðar hafa verið líf mitt í yfir 25 ár. Ég hef lifað algjörum draumi.“
Á ferli sínum hefur Cavendish unnið 161 hjólreiðakeppni og vann sína fyrstu dagleið í Frakklandshjólreiðunum árið 2008. Hann hefur í gegnum ferilinn keppt undir merkjum liðanna T-Mobile, Team Sky, Bahrain, Quick-Step og er núna með Astana-liðinu.