Hljóp á betri tíma en Íslandsmetið

Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp á 10,37 sekúndum í meðvindi.
Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp á 10,37 sekúndum í meðvindi.

Spretthlauparinn Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH náði besta tíma Íslendings í 100 metra hlaupi á Vormóti HSK í frjálsíþróttum á dögunum.

Kolbeinn hljóp á 10,37 sekúndum en Íslandsmet Ara Braga Kárasonar frá árinu 2017 er 10,51 sekúndur.

Meðvindur var hins vegar of mikill, eða +4,3 metrar á sekúndu, og tíminn telst því ekki gildur sem Íslandsmet.

Á sama móti náðu langstökkvararnir Irma Gunnarsdóttir og Daníel Ingi Egilsson sínum besta árangri. Irma stökk 6,40 metra og hafði best stokkið 6,36 metra innanhúss í vetur, og Danél stökk 7,57 metra en átti áður best 7,35 metra innanhúss í vetur.

Kolbeinn, Irma og Daníel eru öll á leiðinni á Norðurlandamótið sem fer fram í Kaupmannahöfn um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert