Ingi Björn Þorsteinsson úr ÍFR og Ástvaldur Bjarnason frá Nesi urðu báðir Norðurlandameistarar í boccia á dögunum þegar Norðurlandamót fatlaðra fór fram í Vejen í Danmörku.
Ingi Björn sigraði í klassa eitt, einstaklingskeppni, og Ástvaldur sigraði í parakeppni í rennuflokki, klassa eitt, í sameiginlegu liði Íslands, Færeyja og Danmerkur. Með Ástvaldi í liði voru Áki Joensen frá Færeyjum og Tanja Madsen frá Danmörku.
Ingi Björn fékk líka bronsverðlaun í parakeppni, klassa tvö, ásamt Aðalheiði Báru Steinsdóttur úr Grósku.
Sigrún Friðriksdóttir úr Akri vann til bronsverðlauna í parakeppni í klassa 3S, sitjandi, ásamt Jesper Trentemöller frá Danmörku.
Fimmti íslenski keppandinn á mótinu var Jósef W. Daníelsson úr Nesi og hann vantaði herslumuninn til að komast í úrslit í klassa fjögur, einstaklingskeppni.