„Þetta var bara ótrúleg upplifun, ég get ekki lýst því öðruvísi, að keppa á svona móti er eitthvað sem maður hefur bara látið sig dreyma um,“ segir Marte Lian Øines frá Þrándheimi í Noregi, atvinnumanneskja í vaxtarræktarafbrigðinu body fitness, sem gerði sér lítið fyrir og náði fjórða sæti á Arnold Classic-mótinu sem haldið var í Sandton í Suður-Afríku um síðustu helgi.
Hefur Øines, sem er fyrrverandi maraþonhlaupari en söðlaði um og gerðist handgengin stálinu, hlaðið á sig medalíum í body fitness síðustu ár en þau Knut Øines, eiginmaður hennar og heimsmeistari í vaxtarrækt í aldursflokki 50+ árið 2020, ræddu feril sinn ítarlega við Morgunblaðið í fyrravor.
Meðal þess sem Marte gumar af á ferilskrá sinni er Noregsmeistaratitill í body fitness, Norðurlandameistaratitill og 3. sæti á atvinnumannamóti í Kína 2019 en þar á undan átti hún sér eftirtektarverðan feril sem leikmaður. Þegar atvinnumannsréttindunum er náð tekur alvaran hins vegar við og hinn kaldi raunveruleiki atvinnumannamóta þar sem keppinautarnir eru helmassaðar stúlkur.
„Mataræðið fyrir þetta mót núna var mjög stíft, ég tók fjórtán vikur á matseðli sem var algjörlega klipptur og skorinn þrátt fyrir að talan á vigtinni væri alltaf sú sama,“ segir Marte með sínum rómaða Þrándheimsframburði sem hún hefur varðveitt vel þrátt fyrir að hafa nú búið með Knut í Porsgrunn í Suður-Noregi um árabil. Þrænskan er ekki allra að skilja og má blaðamaður hafa sig allan við.
„Þetta var auðvitað hreint helvíti eins og undirbúningur fyrir mót er alltaf, Knut stóð með mér gegnum þykkt og þunnt og það var í raun hann sem gerði mest í því að róa mig niður þegar ég var að missa vitið,“ segir Marte og hlær.
Kveðst hún hafa komist í hrikalegt form síðustu dagana fyrir mótið þrátt fyrir að hafa glímt við vökvasöfnun í vöðvunum sem er ekki gott þegar fólk þarf að vera helskorið á sviðinu og sannfæra dómarana um að þar fari verðlaunaskrokkurinn eini og sanni.
„Svo var náttúrulega algjört kolvetnasvelti alveg síðustu dagana,“ gellur í Knut í bakgrunninum sem hefur tekið sér hlutverk hálfgerðs einkaþjálfara konu sinnar enda hefur hann sjálfur marga fjöruna sopið í bransanum, margverðlaunaður vaxtarræktarmaður.
„Þessar stelpur sem maður keppir á móti á alþjóðavettvangi eru rosalega massaðar, ég virka lítil við hliðina á þeim,“ segir Marte og Knut bætir því við að mótið hafi verið risastórt, áhorfendur mörg þúsund enda ekkert smáræðis mót sem ber nafn austurrísku vaxtarræktarstjörnunnar Arnolds Schwarzeneggers.
Marte kveður heim atvinnukeppenda í body fitness harðan og þar taki allt annar veruleiki við en í leikmannaflokki. „Skrokkurinn lætur þig alltaf vita hvort hann vilji eða ekki og ein af kúnstunum í þessu er að hlusta á hann,“ segir Þrándurinn sem stefnir á keppni á nokkrum mótum það sem eftir lifir þessa árs.
Hvað með Knut, ætlar hann sér að stíga á sviðið einu sinni enn á heimsmeistaramóti í vaxtarrækt, tæplega sextugur maðurinn?
„Ég var einmitt að velta því fyrir mér,“ svarar Marte og hlær dátt, „hann er að hóta því að gera eitthvað þegar hann verður sextugur. Hann er náttúrulega eitt ævintýri maðurinn og líka frábær þjálfari, við búum auðvitað saman og þá hefur hann allt aðra sýn en utanaðkomandi þjálfari,“ segir Marte Lian Øines að lokum en eins og hún greindi frá í viðtalinu í fyrravor var það þó hin goðsagnakennda Tone Opheim sem lyfti Marte til æðstu metorða í body fitness sem þjálfari hennar og náði að laða fram það sem til þurfti í keppnisskapi hennar og formi.